Sunnudaginn 9. febrúar er messa í Digraneskirkju kl. 11.00. Félagar úr Kór Hjallakirkju leiða söng undir stjórn Láru Bryndísar Eggertsdóttur organista. Barn verður borið til skírnar í messunni. Guðspjallstexti dagsins er úr Matteusarguðspjalli 20. kafla og fjallar um verkamennina í víngarðinum. Prestur er sr. Sunna Dóra Möller. Léttur hádegisverður á vægu verði í safnaðarheimili að messu lokinni.
Klukkan 17. 00 er fjölskyldumessa og sunnudagaskóli í Hjallakirkju. Guðspjallið um verkamennina flutt með myndum, ljúfir sálmar, örhugleiðing og bænastund. Notaleg stund fyrir alla fjölskylduna í helgarlok og kvöldmatur í safnaðarheimili að lokinni samveru í kirkju á vægu verði. Organisti er Lára Bryndís, Sr. Sunna Dóra og Sara Lind sjá um samveruna.
Verið velkomin.
Guðspjall sunnudagsins 9. febrúar: Matteusarguðspjall 20. 1-16.
„Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gerði sem fyrr. Og á elleftu stundu fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn.
Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.
Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?
Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“
7. febrúar 2020 - 12:19
Sunna Dóra Möller