Mótun kirkjuhúss

Grein eftir Hróbjart Hróbjartsson, arkitekt Hjallakirkju, birt í safnaðarblaði Hjallasóknar fyrir vígslu kirkjunnar árið 1993.

Hvernig verður kirkjubygging til? Af hverju er hún ekki eins og kirkjur voru í gamla daga? Hvers vegna er hún svona í laginu? Á hönnun kirkju sér einhverjar trúarlegar forsendur? Er tiltekinn arkitekt trúaður? Allt eru þetta spurningar sem ber á góma. Mér er ljúft, nú við vígslu Hjallakirkju, að verða við beiðni um að svara slíkum spurningum. En ekki verður öllu svarað í stuttu máli. Ég ætla að beina athyglinni að nokkrum atriðum, sem kalla mætti trúarlegar tilvitnanir.

Hönnun kirkju

Við hönnun Hjallakirkju höfðu trúin, hefð hennar og innihald margvísleg áhrif á mótun bæði stórra og smárra hluta. Sumt er meðvitað en annað ómeðvitað. Mikilvægt er að meðgöngutími hönnunarinnar var nokkuð langur og hægt var að láta hugmyndir gerjast og síast áður en þær fengu endanlega mynd.

Tengsl safnaðarstarfs og daglegs lífs

Sú hugsun að hið almenna safnaðarstarf sé opið, samfélagslegt, og á vissan hátt takmarkalaust, varð til þess að þeir hlutar hússins sem safnaðarstarfið fer fram í fengu tilsvarandi einkenni með stórum gluggum. Það bæði laðar að og tengir starfsemina inni við umhverfi og söfnuð í daglegu starfi utandyra. Hins vegar fékk kirkjurýmið sjálft á sig mynd lokaðs húss þar sem birtan flæðir frá himnum. Þannig má segja að safnaðarheimilið endurspegli starf kirkjunnar út á við en kirkjuskipið innra starfið.

Tákn glugganna

Hin mikla dagsbirta, himnaljós, sem fellur í kórinn og umvefur altarið, vísar til föðurins. Litlu gluggarnir 12 minna að sjálfsögðu á postulana og veita því eðlilega minni birtu. Viss samsvörun er í því fólgin að stóru gluggarnir eru manni huldir en þeir litlu blasa við.

Kirkjuskipið

Litaval í kirkjuskipi má einnig nefna. Kirkjugólfið er með steingráum lit en til stendur að leggja það síðar með íslenskum grásteini. Stólarnir eru úr ljósri eik, klæddir íslensku ullaráklæði. Tilvísunin er í liti kornakurs á íslenskum sandi skömmu fyrir uppskeru. Sáðmaðurinn, sáðkornið, akurinn; allt eru þetta trúarleg tákn og tilvísanir sem ekki þarfnast frekari skýringa.

Trúin og birtan

Inn yfir kór og altari flæðir birtan að ofan. ljósrauður litur á loftþili glæðir birtuna hlýju og fellir hana inn í rýmið. Í kirkjuskipi ríkir minni birta. Yfir svífa bólstrar í bláum, svölum lit. Hugsunin er sú, að enda þótt ljós trúarinnar sé sterkt og hlýtt þurfum við að halda vöku okkar og svölum hug til að meðtaka það.

Undirbúningur kirkjuinngöngu

Að lokum langar mig að segja frá einu atriði sem kann að verkja spurningar kirkjugesta en það er inngangurinn. Forsalurinn nýtist að sjálfsögðu fyrir ýmsar þarfir og til aðgengis annarra rýma. En ég vil benda á þá aðlögun og undirbúning sem fram getur farið innra með manni á þessari stuttu leið. Gengið er frá vestri inn í húsið. Maður kemur inn, stundum í misjöfnum veðrum, inn í hlýjuna, gengur til móts við birtuna, útsýnið, fegurðina, sem vissulega blasir við sýnum út yfir Reykjanesið, snýr sé undan léttum hug, fylgir boganum, er leiddur inn til kirkju, inn á við, í eigin hug, til íhugunar, í samfélag við Guð.

Gengið úr kirkju

Á sambærilegan hátt má líta áhrifin þegar út er gengið, en undir öðrum formerkjum. Tími vinnst til aðlögunar við umhverfið, samfélagið, áður en út er komið í eril hvunndags.