Nýtt orgel vígt í Hjallakirkju
Grein eftir Jón Ólaf Sigurðsson, organista í Hjallakirkju, sem birtist í safnaðarblaði Hjallasóknar á vordögum 2001.
Nýtt orgel var vígt í Hjallakirkju sunnudaginn 25. febrúar 2001 en fram til þess hafði verið notast við lítið orgelpositíf í mörg ár.
Ákvörðun um að fá orgel í kirkjuna var tekin á sóknarnefndarfundi í ársbyrjun 1998 og var organista falið að byrja að vinna að málinu. Fljótlega var ákveðið að reyna að fá Björgvin Tómasson, orgelsmið í Mosfellsbæ, til að smíða orgelið. Hafist var handa við undirbúningsvinnu og sú ákvörðun tekin að hljóðfærið yrði 24 raddir plús framlengingar sem gerir að verkum að orgelið nýtist sem 27 radda hljóðfæri. Þá var ákveðið að orgelið skyldi vera þar sem gert hafði verið ráð fyrir því við byggingu hússins, inn í hvelfingu á veggnum til vinstri þegar gengið er inn í kirkjuna. Orgelsmiðurinn og orgelnefnd Þjóðkirkjunnar fengu svo tillögurnar til umsagnar og var ákveðið að ganga að þeim, enda mikil vinna þar að baki. Að þessari vinnu lokinni gekk sóknarnefnd til samninga við Björgvin Tómasson um smíði orgelsins og var starfssamningur undirritaður í mars 2000. Hófst smíðin þá þegar af fullum krafti.
Það eru mörg handtök við smíði svona stórs hljóðfæris. Í orgelinu eru 1.570 pípur, sú minnsta aðeins nokkrir millimetrar og sú lengsta tæpir 3 metrar á lengd. Þegar Björgvin hafði teiknað allar pípurnar hófst smíði trépípnanna á verkstæði hans að Blikastöðum og teikningar af málmpípum sendar til Þýskalands. Þá var komið að sjálfu spilaborðinu og hönnun þess. Organisti og orgelsmiður fóru saman yfir gerð þess og höfðu til hliðsjónar bækling frá þýsku fyrirtæki. Þegar þeir höfðu náð saman um gerð þess í öllum smáatriðum var niðurstaðan send til Þýskalands til lokafrágangs og smíði. Allir aðrir hlutir orgelsins eru smíðaðir á Blikastöðum og orgelhúsið, það litla sem sést, er úr evrópskri eik sem Björgvin hafði keypt í heilu lagi fyrir allnokkrum árum og þurrkað sérstaklega. Útlit orgelsins er teiknað í samvinnu við arkitekt kirkjunnar, Hróbjart Hróbjartsson, og pípurnar á framhliðinni mynda útlit og einkenni kirkjunnar.
Uppsetning orgelsins í kirkjunni hófst 4. janúar 2001 og er óhætt að líkja uppsetningunni við að raða saman nokkurra milljón stykkja púsluspili þar sem hvert örlítið smástykki verður að falla inn á réttan stað. Þann 5. febrúar hófst lokaspretturinn og að mörgu leyti sá vandasamasti, sem er hljómgun orgelsins. Til þessa verks fékk Björgvin til liðs við sig þýskan meistara sinn, Reinhard Tzchöckel, sem hafði komið að skoða kirkjuna þegar málið var á umræðustigi og hrifist svo af hljómburðinum að hann bað um að fá að taka þátt í lokahljómgun orgelsins.
Orgelið var síðan vígt 25. febrúar eins og áður sagði og var það dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, sem vígði orgelið og prédikaði við vígsluguðsþjónustuna. Orgelvígslutónleikar voru síðan kl. 20.30 sama kvöld. Næstu fjögur kvöld voru síðan orgeltónleikar þar sem leikin voru verk frá öllum tímabilum tónbókmenntanna. Síðan orgelið var vígt hefur það verið mikið notað bæði við guðsþjónustur og á tónleikum sem einleikshljóðfæri og til undirleiks með hljóðfærum, einsöng og kórum og safnaðarsöng. Er það álit allra að smíði orgelsins, raddaval og hljómgun hafi tekist sérlega vel og er það einlæg von að það verði sóknarbörnum til mikillar ánægju í framtíðinni.
Raddaval
1. borð: Aðalverk
- Bourdon 16′
- Prinzipal 8′
- Koppelflauta 8′
- Kvintatön 8′
- Oktava 4’
- Rörflauta 4′
- Kvint 2 2/3′
- Oktava 2′
- Mixtúra IV 1 1/3′
- Trompet 8′
- Tremulant
- II / I
2. borð: Swellverk
- Trégedakt 8′
- Viola da Gamba 8’
- Vox céleste 8′
- Prinzipal 4′
- Blokkflauta 4’
- Nazard 2 2/3’
- Waldflauta 2’
- Terz 1 3/5’
- Kvint 1 1/3’
- Zimbel III 1’
- Óbó 8’
- Tremulant
Fótspil
- Subbassi 16′
- Oktavbassi 8′
- Gedaktbassi 8′
- Kóralbassi 4′
- Fagott 16′
- Fagott 8′
- I / P
- II / P
- II / P 4′